Ferill 107. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 864  —  107. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar
við dreifingu raforku, með síðari breytingum (jöfnunargjald).


Frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar.



    Fyrsti minni hluti er sammála markmiði gildandi laga um að stuðla að jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda, enda er um að ræða sameiginlega auðlind þjóðarinnar. 1. minni hluti er þó ósammála þeirri leið sem felst í frumvarpinu, þ.e. að lagt verði sérstakt gjald á dreifiveitur. Samkvæmt frumvarpinu verður tekinn upp sérstakur skattur á íbúa og fyrirtæki í þéttbýli til að fjármagna niðurgreiðslu í dreifbýli. Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til aukinna útgjalda heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga í þéttbýli.
    Fram kemur í frumvarpinu að frá árinu 2005 hafi árlega verið varið 240 millj. kr. af fjárlögum til að jafna kostnað við dreifingu raforku. Fram kemur einnig að kostnaður við fulla jöfnun í samræmi við lögin sé nú áætlaður um 1 milljarður kr. Að mati 1. minni hluta er verkefnið sameiginlegt öllum í samfélaginu og eðlilegra væri að tryggja nægt framlag í fjárlögum fremur en að leggja aukin gjöld á suma.
    Fram kom fyrir nefndinni að sá skattur sem frumvarpið felur í sér muni hækka raforkureikning heimila og ekki síst fyrirtækja í þéttbýli. Sú hækkun hafi áhrif á vísitölu neysluverðs. Ýmsir sem tjáðu sig um málið fyrir nefndinni töldu það vekja furðu að ekki væri vikið að áhrifum skattlagningarinnar á atvinnurekstur í frumvarpinu en ljóst mætti vera að raforkukostnaður vægi þungt í rekstri margra fyrirtækja.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að jöfnunargjald á raforkudreifingu muni hafa lítils háttar áhrif á vísitölu neysluverðs. Umsagnaraðilar voru margir ósammála þessu og var m.a. bent á að fyrirtæki í þéttbýli sem nota mikla raforku þyrftu að sætta sig við milljóna króna hækkun á raforkukostnaði á ári með tilkomu jöfnunargjaldsins og mundi slík hækkun skila sér út í almennt verðlag. 1. minni hluti telur heppilegra að ríkissjóður fjármagni slíka félagslega aðgerð með skattfé í stað þess að orkufyrirtæki sinni innheimtu gjalds til að jafna kostnað við dreifingu raforku.

Alþingi, 10. desember 2014.



Björt Ólafsdóttir.